Sæl öll. Ég er oft spurður sem köfunarkennari hverning mér líst á hinn eða þennan notaða búnað sem kunningjar eða fyrrum nemar mínir eru að spá í. Nú ef lífið væri fullkomið þá myndu allir hafa pening til að kaupa sér allt nýtt og síðan nægan tíma til að kafa í búnaðinum en svo er nú ekki. Fólk vill spara sér pening og ekki steypa sér í skuldir við kaup á búnaði og það er ekki alveg öruggt hvort það mun staldra við í köfun. Kannski er líka gáfulegra ef svo er að leigja sér búnað ef það væri hægt. Sjálfur hef ég keypt notað og nýtt í gegnum tíðina og oftast gert góð kaup en líka lend í vandræðum með það sem átti að virka bæði nýtt og notað.  Oft var það eitthvað sem ég vissi að gæti verið vandamál með. En fyrir þá sem er að spá í því að kaupa sér notaðan búnað eða selja þá er hér list yfir þá hluti sem ég segi að fólk þurfi að hafa í huga. Ég byrja á því sem ég hef rekið mig mest á sjálfur.
1. Er kúturinn búinn að fara í þrýstiprófun. Stimplað er á kútinn dagsetningu fyrir þrýstiprófun ef hún er eldri en 5 ára má neita eiganda kútsins um fyllingu á kútnum. Athugið því verð á nýjum kút og verð á þrýstiprófun á gömlum kút og hafið til hliðsjónar við kaup á notuðum. Spyrið seljanda að fara með hann í þrýstiprófun áður en þið kaupið. Það er leiðinlegt fyrir báða aðila ef kúturinn fer ekki í gegnum þrýstiprófun.
2. Er rafmagn á köfunartölvuni. Ekki taka það gott og gild að það þurfi bara að skipta um rafhlöðu. Látið seljandan skipta um rafhlöðuna og sannreyna hvort tölvan virki. Sumar tölvur er fylltar með olíu og þurfa að fara til útlanda í rafhlöðuskipti og rafhlaðan lóðuð í o.s.frv.
3. Köfunarlungu er einfaldur búnaður en ef gúmmíið í o-hringunum þornar upp og springur þá þurfa þau viðhald. Það getur gerst í geymslu án notkunar. Athugið því með viðhald á lungunum hér heima eða erlendis og auðvita að prófa þau áður en þið kaupið.  Einnig þarf að hafa í huga að á Íslandi þurfa köfunarlungu að geta þolað mun meiri kulda en á flestum öðrum stöðum erlendis.  Köfunarlungu sem hafa alveg rosalega mikið eittís lúk eru betur geymt áfram upp í geymslu eða í hillu til sýnis.
4. Mátið köfunargalla í undirgalla og þykkum sokkum. Já, það er mikið mál að láta skipta um stígvél sem passa þér ekki.  Takið nokkrar hnébeygjur og sjáið hvort þið getið teygt ykkur í tærnar(svona ef þið getið það án köfunargalla) því þið eigið eftir að fara í fit og búnað í þessum galla og þið þurfið að geta hreyft ykkur.
5. Athugið ástand á strofum á ermum og hálsmáli. Það er ekkert svakalegt vandamál að skipta um gúmmístofur sem eru farnar að springa en það kostar smá pening og betra að láta gera það í tíma.
6. Athugið með ástand á rennilás gallans. Er hann byrjaður að trosna upp eða er hann nokkuð heil? Lásanir kosta helling og viðgerðin líka.  Þetta er dýrasti hluti köfunargallans.
7. Er flotjöfnunarvestið(BCD) með innbyggðum blývösum?  Hérlendis þarf fólk að nota meira blý en erlendis og þetta því góður kostur.  Það er ekkert sérstaklega sexí þegar 12 kg af blýi á blýbelti skríða niður lærin á rasslausum karlmanni og hann skýst upp eins og korktappi ef hann næri ekki að festa beltið(konur lenda síður í þessu). Hversu mikil er lyftigetan á vestinu?  Hérlendis er notaðir stálkútar og mikið af blýi, getur vestið lyft þér almennilega upp á yfirborðinu, getur þú tekið í köfunarfélagan sem er í neyð og lyft honum og þér upp á yfirborðið með vestinu? Í hitabeltinu duga 8 til 12 kg en á Íslandi er minnsta kosti 12 til 20 kg nauðsynleg.  Einnig er vestið vængur á harnessi eða venjulegt vesti?  Vængvesti eiga að auðvelda fólk að ná góðri straumlínulögun í kafi.  Er vesti með festingum fyrir aukahluti eins og auka kúta eða fyrir ljós, venjulega kallað D-hringir?  Eru þessir D-hringir úr plasti eða rústfríu stáli?  Þessi hlutir tryggja að flotjöfnunarvestið vex með ykkur ef þið haldið áfram sem kafarar og bætið við ykkur réttindum eða farið jafnvel í dive masterinn.
8. Fit, klofin fit eru ömurleg!  Ég veit að þetta er umdeilt og sumir missa örugglega þvag við að lesa þetta en svona er þetta.  Látið engan segja ykkur annað, sama hversu vel þeir komast áfram í þeim.  Þau er léleg til að taka þyrlusnúning og þau eru léleg til að taka froskaspörk.  Þið getið lært að lifa við þau en þegar þið ætlið að taka froskaspörk við aðstæður þar sem auðveld er að þyrla upp silti þá munu þau ekki virka eins vel og venjuleg fit þar sem klofin fit eru bara hönnuð fyrir venjuleg skriðsundspörk.  Gott er líka að velja fit úr gúmmí þar sem plast harðnar í kulda en það er mun minna atriði en klofnu fitin.
9. Gríma.  Ekki er víst að gríma sem einhver annar hefur verið að nota hentar þér.  Gefðu þér tíma til að velja þá grímu sem þér líkar og festist vel á andlitinu á þér.  Grímur getað dugað í marga áratugi svo það er í lagi að velja vel.
 
Endilega skoðið svo vel hvort allt hafi ekki verið vel þrifið og komi heima og saman við lýsingar seljanda.
Það er líka grátlegt þegar menn steypa sér út í sportið, kafa svo nokkrum sinnum og sitja uppi með allan búnaðinn. Það er venjulega ekkert að þessum búnaði annað en hann þarf nýjan eiganda og oft eru menn að gera góð kaup í því að versla notað.  En einnig er grátlegt að sjá menn í 20 ára búnaði sem passar þeim engan veginn og mun gera alla upplifun þeira í köfun ömurlega til að spara sér nokkrar tug þúsunda króna.
En athugið að þetta er ekki tæmandi listi heldur bara það sem ég tel vera helstu atriðin og mögulegt að bæta meiru við þennan lista. Ég er líka fyrst og fremst að skrifa um það sem hentar hérlendis.
Og síðast en ekki síst þá mun allur þessur búnaður sem þið ætlið að fjárfesta í ekki aðeins tryggja góð upplifun ykkar í köfun heldur líka vera líflína ykkar í kafi.  Svo hvaða verðmiða setið þið á líf ykkar?
Deila
No result...